starfsorka on October 29th, 2009

Stofnun StarfsorkuÞegar sjúkdómar, slys eða önnur áföll henda getur farið svo að hæfni minnkar og fólk þarf að endurskoða getu sína á ýmsum sviðum. Ýmislegt sem áður var auðvelt og jafnvel sjálfsagt getur nú verið óyfirstíganlegt. Til þess að ná sömu eða sambærilegri færni á ný er endurhæfing mikilvæg, en það ferli miðar að því að gera einstaklinginn aftur hæfan til þátttöku í þeim athöfnum sem hæfni hans skertist til. Í endurhæfingunni er mikilvægt að endurskoða og endurmeta þær aðferðir sem hann hefur áður beitt við að leysa verkefnið. Hér í Eyjum hafa verið fremur fá úrræði til handa þeim sem hafa orðið óvinnufærir.

starfsorka on October 26th, 2009

Sjálfboðaliði er sá einstaklingur sem gefur frá sér tíma, orku og hæfileika, svo aðrir geti notið og væntir einskis tilbaka. Sjálfboðaliðar gera sér grein fyrir mikilvægi góðmennsku, samhugar og gæsku. Góðir sjálfboðaliðar fara af stað með opinn huga, vilja og getu til að læra af öðrum og fá að launum m.a.:

  • Tækifæri til að læra nýja færni eða hæfni – þetta getur falið m.a. í sér samskipta- og félagsfærni, auk tímastjórnunar og launsarmiðaðrar hugsunar.
  • Reynslu – Sjálfboðaliðar geta öðlast mjög dýrmæta reynslu á því sviði sem þeir vilja sérhæfa sig í eða vinna við, t.d. kennsla, fræðsla eða félagsmál. Sjálfboðastarf býður upp á reynslu í öruggu umhverfi með stuðningi og hvatningu.
  • Tækifæri til að hitta nýtt fólk – Sjálfboðastörf býður upp á það tækifæri að kynnast fólki sem eru alla jafna ekki hluti af daglegu samskiptaneti viðkomandi. Þarna myndast mjög oft tækifæri til að mynda nýjan vinskap og kunningsskap.
  • Tækifæri til að gefa eitthvað til baka -  Að láta gott af sér leiða getur verið hluti af lífsviðhorfi einstaklings.
  • Tækifæri til að læra meira um ýmis félagasamtök eða líknarfélög
  • Aukna sjálfsímynd og sjálfstraust – að vera mikilvægur hluti af hóp eða teymi og vera mikilvægur einstaklingur í augum þeirra sem þyggja getur gefið stóran skammt af sjálfstrausti sem ýtir undir sterka sjálfsmynd.  

Dagana 12. – 17. október stóð yfir Rauðakrossvikan þar sem Rauði krossinn leitar eftir sjálfboðaliðum sem vilja vera til taks þegar áföll verða. Mun þessi liðsauki auka getu Rauða Krossins til að aðstoða fólk á neyðartímum. Auk þess leitar Vestmannaeyjardeild Rauða Krossins  einnig eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í verkefninu “föt sem framlag” og Heimsóknarvinir og minna jafnframt á fatasöfnunina en tekið er á móti fatnaði í Arnardrangi við Hilmisgötu. Þar er opið tvisvar í viku, á mánudögum  og  miðvikudögum frá kl. 16 – 18. Rauði Krossinn er einnig að taka þátt í geðræktarverkefni þar sem markmiðið er að bjóða aðstöðu til samveru og samstunda í vetur og eru allir þeir sem vilja taka þátt í verkefni, sem öðrum, því hvattir til að hafa samband við vestmanneyjar@redcross.is

Rauðagerði Frístundarhús er einnig staður þar sem hægt er að láta gott af sér leiða.  Í vetur er fyrirhugaðar ýmsar tómstundir og önnur frístundarverkefni og ef þú vilt taka þátt í að byggja upp öflugt frístundarhús er hægt að kíkja við á Rauðagerði eða hafa samband við Sigþóru á sigthora@vestmannaeyjar.is

Í Vestmannaeyjum eru mikil og mörg tækifæri til að láta gott af sér leiða og hvetur Starfsorka alla til að skoða möguleika sína á að gefa það sem þeir geta  til sjálfboðastarfa. Þátttaka í sjálfboðastörfum gefur fólki tækifæri á að láta gott af sér leiða í samfélaginu og hlýtur að hafa í för með sér góð gildi sem nýtast okkur, ekki síst nú á breyttum tímum í samfélaginu.

starfsorka on October 9th, 2009

Vinnumálastofnun býður einstaklingum í atvinnuleit að taka þátt í starfsendurhæfingaráætlun á meðan þeir eru á atvinnuleysisbótum. Skilyrði er sett fyrir atvinnutengdri endurhæfingu, en þau eru m.a.:

  • að starfsendurhæfingaráætlunin komi til með að nýtast þér beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og sé til þess fallin að skila þér árangri við atvinnuleit.
  • að Vinnumálastofnun geri samning við þig um atvinnutengda endurhæfingu.
  • að gildistími starfsendurhæfingarsamnings sé að hámarki þrettán vikur.

Heimilt er að framlengja starfsendurhæfingarsamninginn einu sinni ef starfsendurhæfingin hefur borið viðunandi árangur að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Ef þér sýnist að þetta úrræði komi til greina skaltu óska eftir ráðleggingum og aðstoð ráðgjafa þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til að gera samning um atvinnutengda endurhæfingu eða kíkja á skrifstofu Starfsorku að Miðstræti 11.

starfsorka on October 1st, 2009

Á dögunum var haldið málþing á vegum Hlutverkaseturs, Félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Rauða kross Íslands og Starfsorku um geðheilsuna og hugmyndafræði valdeflingar.

Málþingið var afar vel heppnað og voru margir áhugaverðir fyrirlestrar í boði. Í lok fundar var hópavinna þar sem þátttakendur settu á blað hugmyndir um hvernig þjónustu þau vilja sjá veitt hér í Vestmannaeyjum.  

Er það von Starfsorku að hægt verði að endurtaka leikinn innan skamms og fá þau Elínu Ebbu og Héðinn til þess að halda fleiri fyrirlestra um geðheilsu, geðrækt og valdeflingu þeirra sem að máli koma.

Samantekt og niðurstöður

Valdefling í verki

Um geðræktarverkefnið og Geðorðin 10

starfsorka on October 1st, 2009

Starfsorka og Starfsendurhæfingarsjóður (Virk) hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér ráðningu ráðgjafa á sviði starfsendurhæfingar í Vestmannaeyjum.

Að Starfsorku koma Stéttarfélögin í Vestmannaeyjum, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Vestmanneyjabær, Fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja (Viska), Úvegsbændafélag Vestmannaeyja og Sjúkrahús Vestmanneyja. 

Ráðgjafi Starfsorku er Hrefna Óskarsdóttir iðjuþjálfi og er hlutverk hennar  að veita einstaklingum í Vestmannaeyjum þjónustu og ráðgjöf á sviði starfsendurhæfingar auk þess að starfa náið með stéttarfélögum starfsmanna,  atvinnurekendum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu.

Kynningarbæklingur Virk

Um störf ráðgjafa