Þjáfun

Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði vegna sjúkra- iðju- og talþjálfunar.

Börn, einstaklingar með umönnunarkort og lífeyrisþegar.

Sjúkratryggingar Íslands greiða 80% af kostnaði við nauðsynlega þjálfun fyrir sjúkratryggð börn og unglinga yngri en 18 ára, einstaklinga með umönnunarkort frá Tryggingastofnun og lífeyrisþega. Þjálfunin skal fara fram á stofu þjálfara sem starfa samkvæmt samningi sem samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur gert.

Ef nauðsyn ber til að þjálfunarskipti séu fleiri en 20 á einu ári greiða Sjúkratryggingar þjálfunina að fullu út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti fyrir sjúkratryggð börn og unglinga yngri en 18 ára, einstaklinga með umönnunarkort frá Tryggingastofnun og lífeyrisþega sem fá greidda tekjutryggingu frá Tryggingastofnun. Fyrir þá sem ekki fá greidda tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins greiða Sjúkratryggingar áfram 80%.

Almenn niðurgreiðsla

Sjúkratryggingar Íslands greiða 40% af kostnaði við nauðsynlega þjálfun fyrstu 25 skiptin á ári fyrir aðra sjúkratryggða einstaklinga. Ef nauðsyn ber til að þjálfunarskipti séu fleiri greiða Sjúkratryggingar 75% kostnaðarins út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti.

Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands vegna þjálfunar fer eftir gildandi reglugerð, nú reglug. nr. 354/2005 með síðari breytingum.

Talmeinafræðingar án samnings

Sjúkratryggingar Íslands veita styrk vegna talþjálfunar hjá þeim talþjálfurum sem starfa án samnings við samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.  Greiðsluþátttakan fer samkvæmt reglugerð nr. 1166/2007.

Endurhæfing

Gerðir hafa verið samningar við nokkra aðila um atvinnutengda endurhæfingu.  Markmið með samningunum er að koma til móts við þá sem vegna veikinda eða annarra heilsufarslegra áfalla þurfa á að halda aðstoð með sértækum endurhæfingaraðgerðum. Þannig er þeim gefið færi á að hefja aftur störf eða skipta um starfsvettvang t.d. að undangengnu frekara námi.

Endurhæfingarlífeyrir er hugsaður sem stuðningur í alvarlegum veikindum þar sem einstaklingum er gefið svigrúm til þess að endurhæfa sig inn á vinnumarkaðinn aftur. Endurhæfingarlífeyrir er mánaðarleg greiðsla tekjutengd og skerðist um ákveðið hlutfall á móti öðrum greiðslum sem einstaklingar hugsanlega hafa. 

Endurhæfing

Með endurhæfingu er átt við atvinnuendurhæfingu einstaklinga. Mat er lagt á vinnufærni og forsendur endurhæfingar metnar. Að því loknu er viðeigandi endurhæfingarúrræði valið sem miðar að því að gefa einstaklingum færi á að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

Markmið TR með samningum um endurhæfingu og endurhæfingarmat er að koma til móts við þá sem vegna veikinda eða annarra heilsufarslegra áfalla, aðstoð með sértækum endurhæfingaraðgerðum og gefa þeim þannig færi á að hefja aftur störf eða skipta um starfsvettvang t.d. að undangengnu frekara námi.

Mat á þörf fyrir atvinnulega endurhæfingu

Tryggingastofnun hefur samið við matsaðila um að greina eftirfarandi þætti:

1. færnisskerðingu einstaklinga

2. ástæðu óvinnufærni

3. meta líkamlegar og félagslegar forsendur endurhæfingar

4. hvort endurhæfingarúrræði koma til greina og þá hvaða úrræði.

Þetta á við sjúkratryggða einstaklinga sem TR vísar til viðkomandi matsaðila, oft í tengslum við umsókn um endurhæfingarlífeyri.

Matsaðilar með samning við TR:

 • Endurhæfingarmatsteymi Gunnars Kr. Guðmundssonar
 • Endurhæfingarmatsteymi Janusar
 • Endurhæfingarmatsteymi Starfsendurhæfingar Norðurlands

Matsaðilar skila niðurstöðum sínum til TR sem vísar einstaklingi í viðeigandi endurhæfingarúrræði.

Atvinnuendurhæfing

TR hefur einnig samið við nokkra aðila um að annast atvinnulega endurhæfingu:

1. Hringsjá

Endurhæfing hjá Hringsjá byggist upp á námi sem miðar að því að undirbúa einstaklinginn fyrir almenn skrifstofu- og þjónustustörf með sérhæfingu m.a. í bókhaldi og tölvuvinnu. Um leið fer fram mat á stöðu einstaklingsins svo hann læri að þekkja sjálfan sig betur, óskir sínar, hæfileika, getu og takmarkanir. Dagskrá hvers einstaklings er að jafnaði 5 klst á dag í fimm daga vikunnar, 9 mánuði á ári í eitt til tvö ár. Hringsjá getur tekið við allt að 14 einstaklingum í senn. Auk þessa heldur Hringsjá tölvu-, bókhalds-, og sjálfstyrkingarnámskeið.

2. Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra

Þjónusta Svæðisskrifstofu nefnist ,,Atvinna með stuðningi” og markmiðið er að auðvelda einstaklingum með skerta vinnufærni að komast í vinnu á almennum vinnumarkaði.

Þjónustan skiptist í eftirfarandi verkefni:

 1. mat á starfsgetu, atvinnuleit, þjálfun/aðlögun á vinnustað, samningar um laun og langtímastuðningur
 2. atvinnuleit, þjálfun/aðlögun á vinnustað, samningar um laun og langtímastuðningur
 3. atvinnuleit, aðstoð á vinnustað, samningar um laun og langtímastuðningur
 4. eftirfylgd og stuðningur

3. Starfsendurhæfing Norðurlands (BYR)

Endurhæfing hjá BYR er byggð upp á námsönnum. Á hverju árið eru tvær námsannir hvor þeirra er fjóra mánuði að lengd. BYR getur haft allt að 21 einstaklinga í endurhæfingu í einu. Endurhæfingin skiptist í fjóra þætti þ.e. félagslega- læknisfræðilega, sálfræðilega og námstengda endurhæfingu. Að formlegri endurhæfingu lokinni er boðið upp á eftirfylgd.

4. Janus Endurhæfing

Hjá Janusi er gert ráð fyrir að atvinnuendurhæfing taki eitt ár og hefur TR samið um endurhæfingu fyrir allt að 13 einstaklinga á ári. Auk endurhæfingarinnar er Janus með eftirfylgd að endurhæfingu lokinni og tekur hún að öllu jöfnu sjö mánuði. Janus er í samstarfi við Iðnskólann í Reykjavík um kennsluþátt endurhæfingarinnar.

Vefur Janus endurhæfingar

 • Auk þess hefur heilbrigðisráðuneyti gert þjónustusamning við Reykjalund sem m.a. innifelur atvinnuendurhæfingu.
 • Til að koma til móts við þarfir krabbameinsgreindra i hefur TR gert samning við Ljósið um endurhæfingu.

Sjúkra-, iðju- og talþjálfun

Sjúkraþjálfun

Áður en farið er í sjúkraþjálfun þarf sjúklingur að leita til læknis og fá beiðni fyrir sjúkraþjálfun. Þá beiðni skal hafa meðferðis til sjúkraþjálfara.

Ekki þarf að senda beiðni vegna sjúkraþjálfunar til Sjúkratrygginga Íslands nema um sé að ræða: Langtímameðferð (ákveðin í samráði við sjúkraþjálfara eða lækni), heimasjúkraþjálfun eða þjálfun vegna slysa sem bótaskyld eru hjá Sjúkratryggingum Íslands. Í slíkum tilfellum sendir sjúkraþjálfarinn beiðnina til Sjúkratrygginga.

Meðferðarform

 • Skoðun

Sjúklingur er almennt skoðaður við fyrstu komu til sjúkraþjálfa og greiðir fyrir skoðunina sama gjald og fyrir almenna meðferð.

 • Stutt meðferð

Meðferð á einu vel afmörkuðu svæði, þar sem einungis er beitt einu meðferðarformi.

 • Almenn meðferð

Miðað er við að almenn meðferð taki 40 til 60 mínútur.

 • Heimasjúkraþjálfun

Forsenda fyrir heimasjúkraþjálfun er að fram komi á beiðni læknis að óskað sé eftir heimasjúkraþjálfun. Sjúkraþjálfari þarf að sækja fyrirfram um þátttöku Sjúkratrygginga í kostnaði við heimasjúkraþjálfun. Sjúklingur greiðir sama gjald fyrir heimasjúkraþjálfun og vegna sjúkraþjálfunar á stofu. Sjúkratryggingum Íslands er þó heimilt að fella niður greiðsluþátttöku sjúklings í heimasjúkraþjálfun ef um er að ræða mjög alvarlegt sjúkdómsástand (t.d. krabbamein eða Parkinsonssjúkdóm á lokastigi) eða mjög alvarlega fötlun.

 • Hópþjálfun

Miðað er við að 2-10 einstaklingar séu í hópþjálfun á sama tíma. Meðferð taki a.m.k. 45 mínútur.

Sjúkraþjálfun barna í grunnskólum

Þann 1. mars 2009 tók gildi samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Félags sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara varðandi þjálfun hreyfihamlaðra barna í grunnskólum. Um er að ræða þjálfun barna sem nota gönguhjálpartæki eða hjólastóla til að komast á milli staða og þurfa á þjálfun oftar en einu sinni í viku. Sjúkraþjálfari getur þá farið í grunnskólann og sinnt þjálfun barnsins þar í stað þess að barnið mæti á sjúkraþjálfunarstofu.

Þegar þjálfunin fer fram í skóla barnsins er verið að þjálfa það í sínu daglega umhverfi og meðferðin er löguð að aðstæðum þar. Samvinna milli sjúkraþjálfara og fagaðila í skólanum eykst og meðferðin verður markvissari. Álag minnkar síðan á foreldra sem keyrt hafa börn sín milli skóla og þjálfunar­staðar.

Fyrirfram þarf að leita samþykkis Sjúkratrygginga Íslands fyrir meðferðinni. Sjúkraþjálfari sendir umsókn til stofnunarinnar þar sem fram kemur rökstuðningur fyrir nauðsyn þess að barnið fái þjálfun í grunnskóla sínum. Einungis er samþykkt eitt skipti í viku til viðbótar við meðferð á stofu sjúkra­þjálfarans.

Iðjuþjálfun

Meðferðarform

 • Skoðun

Sjúklingur er skoðaður við fyrstu komu til iðjuþjálfa og greiðir fyrir skoðunina sama gjald og fyrir almenna meðferð.

 • Stutt meðferð

Meðferð á einu vel afmörkuðu svæði, þar sem einungis er beitt einu meðferðarformi.

 • Almenn meðferð

Miðað er við að almenn meðferð taki 40 til 50 mínútur.

 • Heimilisathugun

Miðað er við að heimilisathugun taki 80 til 100 mínútur

 • Vinnustaðaathugun

Miðað er við að vinnustaðaathugun taki 80 til 100 mínútur.

 • Hópmeðferð

Meðferð hóps einstaklinga (2-10) með svipuð vandamál eða sömu sjúkdómsgreiningu, iðjuþjálfi skal vera með þeim allan tímann.

Sjúklingur sem hefur í höndum beiðni frá lækni skal afhenda hana iðjuþjálfa. Iðjuþjálfi kemur svo beiðninni áfram til Sjúkratrygginga Íslands.

Talþjálfun

-hjá talmeinafræðingum sem starfa skv. samningi við heilbrigðisráðherra

Meðferðarform

 • Frumgreining

Við fyrstu komu til talmeinafræðings fer fram frumgreining þar sem talmein eru greind og sjúkrasaga tekin. Meðferðaráætlun er undirbúin og mat lagt á þörf og hæfni sjúklings til notkunar á tjáskiptatækjum. Slík greining fer aðeins einu sinni fram og ekki ef um er að ræða framburðarmat.

 • Endurmat/greining á framburði

Endurmat talmeina eða greining á framburði getur átt sér stað allt að einu sinni á ári.

 • Almenn meðferð

Sjúklingur fær þjálfun á tal-, málmeinum og notkun hjálpartækja til tjáningar ef það á við. Meðferð skal taka minnst 50 mínútur.

Veitt er ítarleg ráðgjöf um sérsniðna málörvun til forráðamanns og viðkomandi fagaðila (kennara eða þroskaþjálfara). Ráðgjöf skal taka minnst 50 mínútur.

 • Samtíma meðferð tveggja sjúklinga

Talmeinafræðingur veitir tveim einstaklingum með svipuð talmein þjálfun á sama tíma. Meðferð skal taka minnst 50 mínútur.

 • Hópmeðferð

3-4 sjúklingar með svipuð talmein sækja meðferð saman. Meðferð skal taka minnst 50 mínútur.

Í meðferð er innifalinn undirbúningur þjálfunar og skráning eftir hvern þjálfunartíma.

Heimilt er að sækja greiningu og/eða almenna meðferð tvisvar sama dag í þeim tilfellum þegar sjúklingur er að koma um langan veg (lengra en 35 km.) til meðferðar. Í þeim tilfellum skal sjúklingur greiða fyrir 2 meðferðir.

Athugið að Sjúkratryggingar Íslands taka einungis þátt í kostnaði vegna talþjálfunar hjá þeim talmeinafræðingum sem eru með samning við Tryggingastofnun ríkisins.

Eftirtaldir talmeinafræðingar eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ):

 • Sonja Magnúsdóttir – Akureyri
 • Valdís Ingibjörg Jónsdóttir – Akureyri
 • Sonja Magnúsdóttir – Akureyri
 • Eyrún S. Ingvadóttir – Akureyri
 • Ingibjörg Huld Þórðardóttir – Sauðárkróki

Talþjálfun

-hjá talmeinafræðingum sem starfa án samnings við heilbrigðisráðherra

Sjúkratryggingar Íslands veita styrk vegna talþjálfunar hjá þeim talþjálfurum sem starfa án samnings við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. reglugerð 1166/2007.

Forsenda fyrir greiðslu styrks eftir 12. desember 2007, er að fyrirfram hafi verið aflað greiðsluheimildar hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Byrja þarf á því að fara til læknis og fá beiðni um greiningu fyrir talþjálfun, síðan er beiðni send til Sjúkratrygginga. Þegar samþykki Sjúkratrygginga liggur fyrir er farið í greiningu hjá talmeinafræðingi og eftir að niðurstöður hennar liggja fyrir er farið aftur til læknis með greininguna. Læknirinn gefur þá út beiðni um þjálfun og tekur fram fjölda meðferðarskipta (verður að standa í beiðni). Beiðni þarf síðan að berast Sjúkratryggingum ásamt niðurstöðu greiningar, síðan úrskurða Sjúkratryggingar og getur þá viðkomandi farið í talþjálfun og fengið styrk hjá Sjúkratryggingum.

ATH: Þeir sem voru byrjaðir í talþjálfun geta notað áður samþykkta beiðni hjá Sjúkratryggingum og notað fyrri greiningu.

Einstaklingur greiðir meðferð að fullu hjá talmeinafræðingi, en styrkur er veittur gegn framvísun greiðslukvittunar. Á greiðslukvittun þarf eftirfarandi að koma fram:

 • Nafn talmeinafræðings og starfsstöð hans
 • Nafn og kennitala sjúklings
 • Hvaða upphæð er greidd fyrir hverja meðferð
 • Hvaða dag verk var unnið
 • Hvenær hver einstakur meðferðartími hófst og hvenær honum lauk (ekki er nóg að það komi fram t.d. 40 mínútur)
 • Tegund meðferðar
 • Einstaklingur skal í lok hvers meðferðarskiptis staðfesta með undirskrift sinni á greiðslukvittun að meðferð hafi átt sér stað og að hún sé rétt skráð.

Sjúkratryggingar Íslands greiða styrk vegna meðferðar samkvæmt neðangreindum töflum A og B. Aðeins er veittur styrkur vegna einnar meðferðar á dag.

A) Fyrir sjúkratryggð börn og unglinga yngri en 18 ára og lífeyrisþega:

1. Fyrsta greining tal-/málmeina (þó ekki ef eingöngu er um að ræða framburðarmat),

      hámark einu sinni fyrir hvern sjúkling  kr. 6.000

2.   Fyrir greiningu á framburði eða endurmat, hámark einu sinni á 12 mánaða fresti fyrir hvern sjúkling  kr. 4.000

3.   Fyrir einstaklingsmeðferð, tími sjúklings með talmeinafræðingi  a.m.k. 40 mín.  kr. 2.000                                                       

4.   Fyrir einstaklingsmeðferð, tími sjúklings með talmeinafræðingi, a.m.k. 65 mín. kr. 3.000                                                     

5.   Fyrir ráðgjafartíma á stofu, a.m.k. 50 mín., hámark tvisvar á ári fyrir  hvern sjúkling,  kr. 2.000

 B)   Fyrir aðra sjúkratryggða einstaklinga:

1.   Fyrsta greining tal-/málmeina (þó ekki ef eingöngu er um að ræða framburðarmat), hámark einu sinni fyrir hvern sjúkling  kr. 3.000

2.   Fyrir greiningu á framburði eða endurmat, hámark einu sinni á 12 mánaða fresti  fyrir hvern sjúkling  kr. 2.000

3.   Fyrir einstaklingsmeðferð, tími sjúklings með talmeinafræðingi a.m.k. 40 mín. kr. 1.000

4.   Fyrir einstaklingsmeðferð, tími sjúklings með talmeinafræðingi a.m.k. 65 mín.  kr. 1.500

 Vegna meðferða frá og með 15. febrúar 2008 veitir þjálfunarkort rétt á tvöföldum styrk til talþjálfunar vegna meðferða hjá talþjálfurum sem starfa án samnings við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, styrkur verður þó aldrei hærri en greiðsla til talmeinafræðings samkvæmt greiðslukvittun.”

 Reglugerð um styrki Sjúkratrygginga Íslands vegna þjónustu sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga
sem eru án samninga við heilbrigðisráðherra:

Reglugerð 1166/2007

 Ef frekari upplýsinga er þörf, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver Sjúkratryggingar, sími: 515-0000

Comments are closed.